Daði og Hulda í Svíþjóð

Sími: 0046-8-7673755 - Heimilisfang: Siggebovägen 3, 18133 Lidingö

torsdag, november 04, 2004

Allt að gerast

Ég var að koma af dansæfingu áðan - er semsagt í moderntímum einu sinni í viku. Það er alveg hreint ágætt, 90 mín af puði og síðan fylgja tveir dagar af hressilegum harðsperrum. Í dag fékk ég nýjan kennara og ég komst að þeirri niðurstöðu að ég er ekki hið minnsta listræn. Ekki einu sinni pínulítið. Tíminn hófst á því að við áttum að rölta um salinn við píanóundirleik og "finna fyrir gólfinu". Það gekk svosem ágætlega - fann að sjálfsögðu engan veginn kraftinn úr gólfinu en slíkt má feika - en svo áttum við að láta mjaðmirnar ráða ferðinni. Þ.e. mjaðmirnar áttu að draga restina af líkamanum í óvæntar stefnur. NEI! Mjaðmirnar og hendurnar geta bara engan veginn komið mér á óvart! Og svo er þetta líka asnaleg æfing. Verst var að hinar pæjurnar í hópnum tóku þetta afskaplega alvarlega og einbeitningin skein úr augunum á þeim er þær þeyttust um gólfið eins og drottingar. Þær mundu leika amöbur ef þeim væri sagt að gera það.

Svo kom að jafnvægisæfingum. Það gekk bara ágætlega alveg þangað til kennarinn ákvað að við ættum að ímynda okkur að við værum fuglar á flugi. Ég missti jafnvægið og datt.

Annars er bara flest gott af okkur að frétta, mættum á Íslendingasamkomu í gær, erum boðin í hallóvín partí á laugardaginn OG erum búin að festa kaup á badmintonspöðum. Janus og Sigrún koma í heimsókn eftir akkúrat viku sem en náttla bara skemmtilegt. Nú liggjum við á hnjánum og þrífum gólfin með tannburstum. Nei ég er bara að plata. Ætli maður baki ekki bara snúða.