Daði og Hulda í Svíþjóð

Sími: 0046-8-7673755 - Heimilisfang: Siggebovägen 3, 18133 Lidingö

fredag, maj 27, 2005

Stoltur

Ég er stoltur af mörgu sem ég hef gert. Ég er stoltur af því að hafa orðið Íslandsmeistari í körfubolta. Ég er stoltur af því að hafa klárað Verzlunarskóla Íslands og hafa klárað hann vel. Ég er stoltur af því að hafa ákveðið að standa á eigin fótum og flytja til Svíþjóðar beint eftir menntaskóla. En af öllu því sem ég hef gert í lífinu þá er ég stoltastur af því að hafa unnið heimsmeistarakeppnina í Pro Evolution Soccer 2004 í erfiðasta erfiðleikastigi. Aldrei hef ég unnið jafn mikið þrekvirki.

Lokaspretturinn

Jæja, þá er bara vika í næsta próf. Ég er búinn að dóla mér núna síðan á mánudaginn en þá var ég í prófi í aflfræði. Ég fékk sem sagt ellefu daga til að læra undir síðasta prófið. Það þýðir að maður gerir ekki neitt í svona átta daga og lærir síðustu þrjá. Það gengur einfaldlega ekki upp að læra jafnt og þétt, kerfið virkar ekki þannig. Mig langar að fara á Star Wars í kvöld en ég held að Hulda nenni ekki. Á einhver eftir að sjá Star Wars og langar að sjá hana með mér þegar ég kem heim, 6. júní?

Talandi um Star Wars, þetta er alltaf jafn fyndið.

fredag, maj 13, 2005

Skandall

Ég og Hulda vorum niður í miðbæ um daginn að kaupa skó (það tekur laaangan tíma að velja skó á suma). Eftir allt puðið ákváðum við að gera okkur góðan dag og skella okkur á Pizza Hut. Eyða námslánunum í einhverja vitleysu svona til tilbreytingar. En þegar við vorum svo að fara að panta okkur matinn gerðust ósköpin. Hörmungarnar dundu yfir. Heimurinn hrundi. Helvíti braust út. Stelpan sem var að afgreiða okkur tjáði okkur það að Pizza Hut væri hætt með brauðstangir. HÆTT MEÐ BRAUÐSTANGIR?! Engar brauðstangir og heit sósa til að dýfa í. Engar ostafylltar brauðstangir í forrétt?! Ég datt niður á hnén og brast í grát. Ég öskraði. Ég braut diska. Ég kastaði glösum. Ég brjálaðist. Þetta gat náttúrulega ekki verið. Þetta var verra en þegar ég fór á Mcdonalds og frönskuvélin var biluð. Þetta er eins og ef KFC myndi hætta að hafa húð utan á kjúklingabitunum. Ég tárast við tilhugsunina.

Eins gott að allir skyndibitastaðir á Íslandi séu ekki að fara til fjandans líka.

P.s. Það er ekki KFC í Svíþjóð. Hvað í andskotanum er að þessari þjóð? Surströmming eru þeir með á boðstólum en ekki KFC?!

fredag, maj 06, 2005

Stelpur

Ég umgengst ekki kvenfólk lengur. Ég er eina stelpan í bekknum og það eru heldur engar stelpur í vinahópnum hans Daða. Okkar bestu vinir eiga ekki kærustur. Eftir níu mánuði í útlöndum er svo komið að ég panikka ef kvenmaður kemur nálægt mér. Svitna í lófunum, tapa áttum og finn ekki upp á neinu að segja. Hvað ef ég geri e-ð vitlaust? Kannski vill hún aldrei tala við mig aftur. Ætli hún vilji verða vinkona mín?

Kem svo heim, brosandi eins og sól í heiði, og segi Daða mínum frá því að ég hafi sko talað við stelpu í dag. Fer svo alveg í köku þegar ég man að ég hef ekki hugmynd um hvort að stelpan hafi heitið eitthvað.