Daði og Hulda í Svíþjóð

Sími: 0046-8-7673755 - Heimilisfang: Siggebovägen 3, 18133 Lidingö

lördag, april 30, 2005

Óhappa

Í byrjun mánaðarins fengum við rafmagnsreikninginn en týndum honum.

Um daginn kviknaði í straujárninu okkar svo nú eigum við ekkert straujárn og ég get ekki strauað mínupilsið mitt og get þ.a.l. ekki notað það. Er samt búin að finna straujárn á útsölu svo bráðum kemst ég aftur í mínupilsið mitt.

Í síðustu viku komu granninn og vinur hans í heimsókn. Eftir matinn langaði okkur í kaffi og þar sem að pressukannan mín er svo lítil ákvað ég að nota expressókönnuna mína í staðinn. Hélt að ég hefði gert allt eins og venjulega en í stað þessa að fá ilmandi kaffi í gegnum götin á könnunni kom bara kaffikorgur. Granninn og ég horfðum á þetta með undrunaraugum. Skyndilega heyrðist hvellur og allur korgurinn í könnunni þeyttist út um götin tvö og myndaði þennan líka fína svarta gosbrunn í eldhúsinu okkar. Kaffikannan tæmdist og var sem nýþvegin að innan. Allt varð svart. Glugginn, eldavélin, gólfið, viftan, allt saman. Granninn slapp óskaddaður þar sem götin sneru ekki að honum. Ég stóð hins vegar á milli annarrar bununnar og gluggans. Ég varð líka svört. Andlitið, bringan, fötin, hárin, eyrun, augun, allt saman. Vægast sagt hillaríus. Brenndi mig aðeins en það er gróið núna.

Á mánudaginn tók ég próf. Prófið var drulluerfitt en villurnar sem ég gerði voru ekki alls erfiðar. Tegraði dobbúlintegral yfir ellipsu sem var að háð jákvæðum konstöntum og fékk út svarið ln(2)* pí! Stundum virkar minn annars effektívi heili ekki eins og hann á að gera. Náði samt prófinu og þar með 7 einingum í viðbót.

Degi eftir að rafmagnsreikningurinn átti að greiðast fannst hann. Snepillinn hafði á e-n undraverðan hátt dottið í ruslið undir skrifborðinu. Hjúkket að við erum sóðar sem tæmum ekki pappírsruslið á hverjum degi. Reikningurinn var greiddur samstundis. Nú er bara að vona að hinir annars reglubrjáluðu Svíar slökkvi ekki á rafmagninu hjá okkur.

lördag, april 23, 2005

Mogginn

Það var fyndið að setjast inn í neðanjarðarlestina í miðbæ Stokkhólms í gærkvöldi og finna þar Morgunblaðið beint á móti mér. Það sem var ennþá fyndnara var að ég fattaði ekki að ég væri að lesa íslenskt blað fyrr en eftir nokkrar síður.

måndag, april 18, 2005

Margt smátt gerir eitt stórt

Í dag kom fyrsta ávísunin af mörgum frá Vi súpermarkaðnum. Það borgar sig aldeilis að vera með poängkort, heilar 50 sænskar krónur græddum við. Þetta þýðir að við fáum sem sagt u.þ.b. 2-3 50 króna ávísanir á ári (erum búin að vera með kortið frá áramótum). Jæja, nóg af röfli, ég er farinn á eyðsluflipp!

lördag, april 09, 2005

Alrighty then



Við keyptum Ace Ventura: Pet Detective á DVD í gær. Matvöruverslunin Vi hérna í næsta húsi er alltaf með tilboð á DVD myndum, 59 - 89 SEK fyrir mynd eða jafnvel tvær fyrir 99 SEK. Dúndurtilboð (ef það er eitthvað sem fátækir námsmenn kunna að meta þá eru það tilboð, gratis är gott). En já, Ace Ventura: Pet Detective. Ég held ég gæti hlegið endalaust að þessari mynd og reyndar öllum myndum sem Jim Carrey leikur í. Þessi maður er svo endalaust fyndinn. Fyndnasta atriðið í Ace Ventura: Pet Detective er þegar hann leikur atriði afturábak þegar hann er á geðveikraheimilinu. Ég grenja alltaf úr hlátri þegar hann þylur upp sem hann sagði afturábak í tútúpilsinu sínu með hárið allt út í loftið. Gjörsamlega golden.

torsdag, april 07, 2005

Öflugt

Pabbi eins félaga míns hér í Svíþjóð er med einkaleyfi á kjarnaofni. Það finnst mér kúl.

fredag, april 01, 2005

Firefox á sterum

Mæli með að allir sem noti Mozilla Firefox tjékki á þessu. Og þið sem eruð að nota Internet Explorer eða eitthvað annað drasl, skiptið í Firefox.

Flottir


Posted by Hello