Daði og Hulda í Svíþjóð

Sími: 0046-8-7673755 - Heimilisfang: Siggebovägen 3, 18133 Lidingö

måndag, december 27, 2004

Halló Halló

Já, við erum ennþá lifandi. Búin í prófum, búin að fá heimsókn frá systur minni og fjölskyldu hennar og komin "heim" til Íslands! Wow wow wow það er nú aldeilis. Annars býst ég við að það verði afskaplega lítið bloggað á meðan við erum á klakanum (en hver veit? Ég hef svo sem ekkert betra að gera...). Jólaboðageðveikinni lauk í kvöld og var hún með ágætasta móti í ár. Aðalfréttin í jólaboðinu hennar Huldu var hvað ég sé búinn að leggja mikið af þó svo að amma hennar virðist hafa verið sú eina sem sjái það. Annars er afskaplega þægilegt að vera kominn heim og getað slappað af á meðan Hulda vinnur fyrir heimilinu (loksins skilaði kvennabaráttan sér í rétta átt).

Að lokum óska ég öllum gleðilegra jóla og farsæls nýs árs!


Hvað vesenið með myndasíðuna varðar þá kemur hún vonandi upp aftur bráðum, þeir sem vita um ókeypis hýsingu handa okkur mega hafa samband.

söndag, december 12, 2004

Lekur gosflaskan ef maður tekur plastdraslið úr tappanum?

Þetta fannst mér skyndilega mjög áhugavert yfir kvöldmatnum svo ég ákvað að komast að því. Fyrst reif ég plastdótið úr tappanum, setti tappan síðan aftur á flöskuna og skrúfaði fastan. Því næst sneri ég flöskunni á hvolf og ekkert gerðist. Humm...kannski það taki bara smá tíma að byrja að leka...og þess vegna skellti ég hálffullri flöskunni, á hlið, efst upp í ísskápinn og lokaði. Tveimur tímum seinna opnaði ég aftur skápinn og viti menn - það tók bara smá tíma að byrja að leka.

Nú er ísskápurinn okkar allur klístraður og ég er búin að læra að það er ástæða fyrir plastdrasli í töppum.onsdag, december 08, 2004

Ójá...

Fór í skólann í dag. Ég var þreytt og mygluð og höndlaði engan veginn að vera þarna. Þurfti samt eiginlega að skila inn síðustu heimadæmunum í áfanganum og þetta var nú síðasti tíminn og kennarinn ætlaði að tala um munnlega prófið í næstu viku. Þar sem ég sit í sætinu mínu og læt mér líða illa heyrist í kennaranum: ,,Já, það hefur verið siður í þessum skóla að nemendur í doktorandkúrsum skili bara inn heimadæmum og taki ekkert próf. Ég hef ákveðið að hafa það svipað. Hér eru heimadæmin úr síðustu viku og ég er búinn að skrifa lokaeinkunnirnar ykkar þarna á, ef þið eruð óánægð með þessa einkunn þá verður próf í næstu viku sem þið getið tekið." Ég fékk heima dæmin mín til baka og á þeim stóð: ,,Slutbetyg: 5 " (sem er hæsta einkunn möguleg) Síðan kom í ljós að ég var ein í bekknum með fullt hús stiga fyrir heimadæmin mín s.s. ég var hæst í bekknum...JESS!!!
Þetta hefur svo í för með sér að í stað þess að klára próf 16.des, þá eru sumir búnir 13. desember með prófatörn sem samanstóð af tveimur prófum...Uhh...JESS!!!

Nú er bara að fara að byrja að læra umhverfiseðlisfræðina, skila inn ritgerðinni um kjarnasamrunann og rúlla þessu upp...

torsdag, december 02, 2004

Lúðraþytur

Í fyrradag sat ég í makindum í lestrarsölum vélaverkfræðideildar KTH (haha, sitja í makindum í lestrarsal, ekki sjéns) og allt stefndi á mikið dugnaðarkvöld. Ég ætlaði að sitja til 21 eða 22, sem er einstaklega mikil harka á minn mælikvarða þar sem ég var búinn um hádegi í skólanum og hafði svo farið að vinna að hópverkefni. Svo þegar klukkan slær 19 fer allt til andskotans. Byrjar ekki helvítis Lúðrasveitin (Lúðrasveit vélaverkfræðideildinnar) að æfa í næstu byggingu með tilheyrandi látum. Þetta hefði kannski verið allt í lagi ef þau væru ekki svona ótrúlega léleg. Þau myndu ekki einu sinni fá að hita upp fyrir Lúðrasveit Sólheima. Ég neyddist því til að pakka saman 2-3 tímum fyrr en áætlað var, enda er ekki hægt að lesa eitthvað þegar það hljómar eins og einhver sé að kyrkja kött í næsta herbergi. Fuss.


Reyndar er þetta mjög skemmtileg lúðrasveit en ég er bara svo bitur yfir því að þau trufluðu mig.

Sveittur gaur

Það er alltaf jafn gaman að fara í ræktina. Ekki bara af því ég er svona ótrúlega massaður og finnst einstaklega gaman að hnykkla vöðvana fyrir framan risastóru speglana á veggjunum. Heldur vegna þess að þegar ég mæti þarna á hverjum morgni þá er Sveitti gaurinn þar oftast nær. Sveitti gaurinn er magnaður. Hann er svona fertugur að aldri, mjög ítarlega vaxinn (feitur) og æfingagallinn hans samanstendur af þröngum eighties jogginggalla (engum skóm nota bene, alltaf bara berfættur og nettur á því). Einnig hef ég séð hann inni í æfingasal með líter af mjólk (eða súrmjólk?) og þambandi það á milli setta. Alltaf þegar hann kemur fer hann beint í tækin, hitar aldrei upp, velur sér óheyrilega þung lóð og fer svo að juðast og þjarkast. Juðast og þjarkast felur í sér kannski svona 6 endurtekningar mest, allar gjörsamlega vitlaust gerðar og oft með mögnuðum stunum. Það var samt best þegar ég kom í ræktina um daginn og sá hvernig hann hitar upp; Haldið þið að hann hafi ekki bara setið inni í gufunni í fullum klæðum, með íþróttatöskuna og allt (í skóm!), og hann hefur eflaust verið búinn að vera þar inni í dágóðan tíma enda orðinn vel sveittur. Svo þegar hann kemur út fer hann úr skónum og hendir sokkunum í ruslið. Þessi gaur er alveg frábær. Frábær sveittur gaur.