Daði og Hulda í Svíþjóð

Sími: 0046-8-7673755 - Heimilisfang: Siggebovägen 3, 18133 Lidingö

torsdag, september 30, 2004

Myndasíða!

Já þið lásuð rétt! Við erum komin með myndasíðu (aðeins sneggri en Katla, haaa) og munum vera duglegum að setja allar þær myndir sem við tökum inn á hana. Hins vegar verður smá bið á því eða þangað til seinna í þessari viku þegar við fáum snúruna svo við getum fært myndir yfir á tölvuna. *hóst* Við gleymdum eiginlega snúrunni heima á Íslandi *hóst*. En á meðan getið þið skoðað frábærar myndir af systurdóttur minni sem ég fékk lánaðar af síðunni hennar Láru. Til þess að komast á myndasíðuna þá smellið þið bara á "Skoða myndir" hérna til hægri.

Tungr knifr

Það er ótrúlegt hversu margir bekkjarfélaga minna hafa séð myndina Hrafninn flýgur eftir Hrafn Gunnlaugsson. Og það eina sem flestir muna eftir úr þessari mynd er "Tungr knifr".

Bekkjarfélagi: "Dadi, har du set filmen med den där tungr knifr?"
Ég: "Ha?"
Bekkjarfélagi: "Tungr knifr!"
Ég: "Ha?"
Bekkjarfélagi: "Tungr knifr! Det är en riktig bra vikingfilm!"
Ég: "Jááá, du mener þungur hnífur?"
Bekkjarfélagi: "Ja precis, tungr knifr!"
Bekkjarfélagi 2: "Pratar ni om Korpen flyger!? Det är en KLASSIKER!"


"Tungr knifr" kemur greinilega úr einhverri frægri línu í þessari, að því virðist, klassísku mynd (sbr. 4. málsgrein í þessari sænsku umsögn). Frasinn "tungr knifr" var orðinn frekar vinsæll meðal nokkra bekkjarfélaga minna og um daginn átti ég að kenna þeim meiri íslensku. Þeir vildu að sjálfsögðu læra eitthvað í framhaldi af "tungr knifr" og báðu mig um að kenna sér að segja þungur skítur eða "tungr skitr" eins og þeir bera það fram. Frasinn "tungr skitr" vekur nú gríðarlega lukku í hvert skipti sem einhver þarf að fara á klósettið.

lördag, september 25, 2004

Um hjólreiðar

Maður er kominn í þrusugott hjólaform síðan við fluttum hingað. Við erum að tala um að núna kemst ég yfirleitt upp risastóru og BRÖTTU brekkuna fyrir neðan íbúðina mína. Og það er sko ekkert smá. Stóð sjálfa mig að keppa við hjólabrjálæðing í grænum glanshjólabuxum og með massaðri kálfa en ég - og hélt í við hana.

Gerðist um daginn að mér leið vel á hjólinu. Og fannst atriðið í Taxi 3 þar sem Stallone hjólar yfir bílana geggjað skemmtilegt. Hingað til hafa mér þótt hjólreiðar álíka spennandi og túrverkir. Ég óttast að ímynd mín sem ákafur andstæðingur hjólreiða sé að veikjast. Áður en ég veit af verð ég orðin ein af bjánunum sem hjóla um Ísland á sumrin. Í regngalla meðfram þjóðveginum - ALLTAF í mótvindi.

Þegar piparkökur bakast...

Kannski ekki alveg piparkökur en við vorum að baka muffins. Ég var að enda við að taka þessar einstaklega girnilegu muffins út úr ofninum. Mmmh, mmmh mmmmmh! Við erum svo ótrúlega heimilisleg að það er ekki fyndið. Betty Crocker hvað?

fredag, september 24, 2004

Vettvangsferðin var öll hin hressasta. Við lögðum af stað með rútu snemma um morguninn og vorum komin að pappírsverksmiðjunni Kvarnsveden um 11 leytið. Þar tók við dagsprógramm þar sem byrjað var á fyrirlestri um pappír, vissuð þið að pappír samanstendur af 99% vatni og 1% trefjum? Svo var farið í skoðunarferð um verksmiðjuna og eftir það tók við annar áhugaverður fyrirlestur, vissuð þið að Kvarnsveden er öruggasta pappírsverksmiðjan sem hægt er að vinna í? Það sem stóð upp úr þessum degi var samt kvöldmaturinn sem samanstóð af gourmet skinku- og kjötsneiðum reiddum fram með ljúffengri sósu og kartöflugratíni, mmh. Á meðan matnum stóð sá Ingenjör Lundström um skemmtiatriði, mikill snillingur þar á ferð. Eftir þennan viðburðarríka dag var svo rölt af stað á farfuglaheimilið sem við áttum að gista á. Þetta átti eftir að verða áhugaverð nótt þar sem farfuglaheimilið er gamalt fangelsi. Aðeins of þröngt í fangaklefum fyrir minn smekk. Daginn eftir var vaknað klukkan 7 og haldið heim á leið, þó með stuttu stoppi í einhverri koparnámu sem ég veit ekki hvar er (morgunhress? ég held ekki). Allir fóru sem sagt í skoðunarferð niður í námuna og það sem bjargaði þessari sérstöku skoðunarferð var leiðsögumaðurinn sem var í vægasta lagi mjög súr og talaði þessa einstaklega skemmtilegu finnsku-dalasænsku (skv. einhverjum úr bekknum mínum) sem margir bekkjarfélagar mínir virtust eiga erfitt með að skilja. Ég held að það sé ekki heilbrigt fyrir nokkurn mann að vera meira og minna lokaður niðri í námu í 20 ár.

En annars er bara allt gott að frétta og myndasíðan er aaalveg að koma!

Fróðleiksmoli dagsins: Pappírsverksmiðjan Kvarnsveden, í bænum Borlänge, notar 1% af heildarrafmagni Svíþjóðar. Það gerir rafmagnsreikning upp á 350.000.000 SEK yfir árið. Vá.

tisdag, september 21, 2004

Vettvangsferð

Enginn skóli hjá mér í dag. Helmingurinn af vélaverkfræðinni fór á áðan í tveggja daga vettvangsferð, hinn hópurinn fer á morgun (og þ.a.f.l. ég). Það er alltaf gaman að fara í svona ferðir en það er einn hængur á, ferðinni er heitið í pappírsverksmiðju. Þetta er víst allt saman mjög mikilvægt, sérstaklega þar sem skógariðnaður Svíþjóðar er meðal þeirra stærstu í heimi og gríðarlega mikilvægur fyrir efnahag Svíþjóðar... Boooooring! Annars verður ferðin eflaust mjög skemmtileg.

Svíar eru allt of miklir umhverfishippar, miljö-þetta miljö-hitt.

lördag, september 18, 2004

Happy day!

Þvílík gleði, þvílík hamingja. Við erum komin með internetið, fengum það í gær. Beintengd frá Siggebovägen 3, 18133 Lidingö, Svíþjóð. Svo til að kóróna þennan frábæra dag þá fengum við líka 4kg nammipakka frá Íslandi. Takk mamma!

Farinn að downloada öllu sem ég get og leggjast í sykurleðju...

fredag, september 17, 2004

Óheppnin virðist elta mig á röndum

Nágranninn okkar hann Mattías er að koma í mat til okkar á eftir og ég var búin að laga þetta líka fína lasanja. Allt í rosa flottum aðskildum lögum, pasta, kjötsósa og ostasósa, og svo þetta líka fína skreytingarlag af rifnum osti. Þegar ég var að setja fatið mitt í ofninn þá gerðist e-ð dularfullt og fína fatið með fallega matnum rann úr höndunum á mér og niður á ofnskúffuna. Fínu lögin mín blönduðust saman og urðu að lasanjadrullumalli. Ég setti nýtt skreytingarlag af rifnum osti á lasanjað mitt. Núna er ég með drullumall í dulargervi í ofninum. Vonandi tekur Mattías ekki eftir neinu. Mig langar að fara að gráta. Og enginn skilur sorg mína nema kannski Hanna Rut og hún er og upptekin við að sauma til að lesa bloggið okkar.

Aumingja ég.

Hreyfingarleysi

Eftir afskaplega mikið hreyfingarleysi í sumar, fyrir utan óhóflega mikla golfspilun, ákvað ég að nú væri tíminn til að fara að gera eitthvað. Þar sem að ég hef engan veginn efni á að ganga í golfklúbb hérna og eina innanhúsgolfsvæðið nálægt mér hefur verið lagt niður (týpískt!) var ekkert annað að gera en að kaupa mér líkamsræktarkort. Í gær fór ég því í KTH-Hallen og keypti mér hálfs árs æfingakort. Ég fór meira að segja á fyrstu æfinguna mína í morgun, og það áður en skólinn byrjaði! Hah!

tisdag, september 14, 2004

Rólegheit og skemmtileg helgi

Jæja, vettvangsferðin sem ég átti að fara í dag í Maskinteknik (vélaverkfræði) kúrsinum féll niður, það hefði nú verið gaman að kíkja til Scania. Ég var sem sagt búinn klukkan 10 í skólanum og er því í góðri afslöppun hér í tölvustofunni. Ég reiknaði reyndar skiladæmin í stærðfræði á áðan en ákvað síðan að hverfa til mikilvægari mála, leika mér í póker á netinu á www.pokerroom.com (mæli eindregið með þessari síðu fyrir pókeráhugamenn) og spjalla við vini og vandamenn á MSN. Skrýtið hvað maður er skyndilega vinsæll eftir að hafa flutt til útlanda.

Annars var hörkufjör um helgina, ég og Hulda fórum í helvíti góða nýnemaveislu, nöllegasquen réttu nafni. Þetta er veislan þar sem nýnemarnir eru vígðir inn í vélaverkfræðideildina. Bekkurinn hittist fyrst kl. 15 heima hjá Malin og klukkan 17 var haldið í veisluna sem haldin var í risastóru tjaldi á skólasvæðinu. Eitthvað virtist skipulagningin hafa klikkað og var biðin eftir matnum óóótrúlega löng og var ég orðinn vel pirraður þegar ég fékk hann loksins (þá voru 8-9 klukkustundir frá því að ég borðaði eitthvað almennilegt síðast). Skemmtiatriðin á meðan voru þó ágæt og ber helst að nefna bekkjarfélaga minn Erik (sem er mjög stoltur yfir því að vera frá Gotlandi) sem kom öllum á óvart og spilaði þetta þvílíka harmonikkusóló. Eftir að hafa spjallað við hann eftir veisluna kom í ljós að hann var eitthvað harmonikkuprodigy þegar hann var yngri og fékk styrk til að spila og æfa sig. Nörd. En já, eftir matinn kom PHÖPO (PHÖPO er lögregla nemendafélags vélaverkfræðideildarinnar og sjá þeir um að halda busunum á teppinu, nánari útskýring síðar) vel á óvart og héldu rokktónleika í tjaldinu. Eftir þetta allt saman var svo farið með okkur í langan göngutúr og var augljóst að nú átti að vígja okkur inn. Umsjónarmenn okkar (hver bekkur hafði tvo eldri nemendur sem umsjónarmenn) héldu á kyndlum og gengu fyrir okkur í gegnum skóginn í myrkrinu (úúúhh). Loks komum við að löngum stíg sem búið var að lýsa upp með kertum og endaði þessi stígur að stóru tjaldi þar sem tólf eldri vélaverkfræðinemendur (greinilega einhvers konar viskuráð) sátu alvarlegir að svip. Er við komum upp að tjaldinu steig einn þeirra upp og og hélt þrumuræðu (og ég meina þrumu því einhvers staðar í skóginu var búið að koma fyrir miklum hátölurum og græjum sem sköpuðu góða stemmningu og mikinn og ógnvekjandi hávaða þegar hann þuldi upp ræðuna) yfir okkur. Það er svolítið þreytandi þegar Svíarnir tala svona hratt en þetta var einhver glorious ræða um vélaverkfræðideildina og að við værum nú vígð inn og endaði hún á því að við mættum núna brenna húfurnar okkar! Við erum sem sagt búin að ganga með derhúfur merktar vélaverkfræðideildinni í fjórar helvítis vikur (vel sveittar derhúfur það). Um leið og ræðumaðurinn sleppti orðinu rauk eldurinn upp á mikilfenglegan hátt og fólk byrjaði að kasta húfunum á eldinn, öskrandi af gleði. Eftir þessa stórfenglegu stund var göngunni haldið áfram og komum við loks á leiðarenda, ferðinni var greinilega heitið í hús vélaverkfræðinnar. Það var á þessari stundu sem umsjónarmenn okkar yfirgáfu okkur og numum við staðar uppvið múrvegg. Ofan á þessum múrvegg var mjög svo skondinn náungi klæddur í tóga og með skúringamottu á höfðinu (þetta átti augljóslega að vera vitur maður með mikið krullað hár, eitthvað á
þessa leið). Það sem var svo óstjórnlega fyndið var að þessi maður var frekar lítill og feitur og "tóginn" hans var alltaf að losna svo að þessar líka myndarlegu geirvörtur brostu við. Hann hélt einnig einhverja langa ræðu yfir okkur sem ég skildi afskaplega lítið af, því ekki var nóg að ég veltist um af hlátri yfir útliti hans heldur var maðurinn líka smámæltur. Hann minnti frekar á þessa kostulegu fígúru heldur en vitran mann. Eftir þennan gamanleik var okkur svo vísað inn um myrkar dyr og eftir stutta göngu í þessum dimma gangi komum við að borði. Þar sátu yfirmenn PHÖPO (yfirmenn PHÖPO eru alltaf karl og kona og sjá þau um að skipuleggja busavikurnar) alvarlegir á svip og virtust líkleg til alls. Ekkert alvarlegt gerðist því skyndilega tók maðurinn af sér gleraugun og heilsaði okkur glaðlega. Hann bauð okkur velkomin í vélaverkfræðina og bauð okkur að skála með þeim í rauðvíni. Þetta var mjög táknræn stund þar sem allt rautt (rauður er einkennislitur vélaverkfræðideildarinnar) hafði verið bannað hingað til. Því næst gengum við upp stiga og komum upp í vélaverkfræðihúsið þar sem umsjónarmenn okkar tóku vel á móti okkur og buðu okkur velkomin í vélaverkfræðideildina. Það var einstaklega fyndið að sjá þau í venjulegum fötum en hingað til höfðu þau verið klædd í kjólföt og verið með einstaklega kjánalega hatta. Nú var partíið hafið og ótrúlegt hvað var búið að gera við húsið, því hafði verið breytt í djammstað þar sem skólastofurnar breyttust í bari eða dansgólf og var búið að skreyta allt í bak og fyrir. Utanfyrir voru svo hoppukastalar sem fólk gat skemmt sér í. Hulda vakti góða lukku í hoppuköstulunum með sínum flikk-flakkum (eða hvað það nú heitir) og heljarstökkum. Einn náungi virtist ekki komast yfir það hvað hún var miklu betri en hann og greip loks um fætur hennar til að stöðva hana eftir að hafa kvartað sáran í dágóðan tíma. Ég held að það sé fátt jafn fyndið og fólk í annarlegu ástandi í hoppuköstulum. Svona hélt svo partíið áfram fram á rauða nótt.

Þessi færsla varð allt of löng fyrir löngu síðan og vonandi kláraði einhver að lesa þetta. Myndasíðan kemur upp á næstu dögum og við bíðum líka spennt eftir að fá netið heim svo hægt sé að uppfæra síðurnar reglulega. 8 Mbit nettenging,
mmh.

måndag, september 13, 2004

Er virkilega mánuður liðinn?

Blessuð öll sömul!

Í gær var einmitt mánuður liðinn frá því að við stóðum á flugvellinum - ásamt kílóunum okkar tvöhundruð - og kvöddum alla. Merkilegt hvað tíminn líður hratt.

Daði lofaði því að ég ætlaði af færa inn ferðasögu en þar sem ég nenni því enganveginn þá fáið þið bara stuttu útgáfuna:

Mættum út á völl á Íslandi snemma morguns þann 12.ágúst. Það tók smá stund að sannfæra starfsfólkið á flugvellinum um að Daði væri víst sumarstarfsmaður og að við ættum ekki að borga 160 kg yfirvikt (sumir gleymdu nefninlega starfsmannapassanum heima) en tókst. Á Arlanda tók ekkert betra við. Leigubíllinn sem við höfðum pantað kvöldið áður mætti ekki og þar sem við vorum með svo mikinn farangur þá urðum við að fara í svona stóran átta manna leigubíl. Við vöktum feiknamikla athygli þegar verið var að troða dótinu okkar í bílinn (með tvö hjól, golfsett, fjórar alvöru ferðatöskur, tvær íþróttatöskur og stóran poka sem geymdi rúmfötin). U.þ.b. tíu leigubílsstjórar röðuðu sér í kringum okkur og flissuðu og hlógu og reyndu að ráðleggja aumingjans leigubílstjóranum okkar hvernig best væri að koma dótinu fyrir í bílnum.

Anywayz, íbúðin okkar er ágæt í flesta staði. Rúmgóð, björt, vel staðsett og allt svoleiðis en agalaega bleik! Manneskjan sem bjó í íbúðinni á undan okkur var s.s. alveg blessunarlega laus við minnsta vott af smekk. Bleik forstofa, gult svefnherbergi skreytt með gylltum englum sem bera grænar slaufur, ferskjulit stofa með rómverskum tölustöfum og bleik elhúsinnrétting. Hún kunni reyndar ekki við að mála yfir flísarnar hjá vaskinum þannig að þær eru svona gamaldags brúnskræpóttar.

Við eyddum löngum tíma í Ikea, jafnvel enn lengri tíma í að setja fjandans dótið saman og svo byrjaði skólinn. Að tveimur gasalega léttum og auðveldum inngangsvikum liðnum (Sumir fengu sko 10.0 fyrir inngangsstærðfræðina - spurjið Daða hvað hann hafi fengið) hófst hið eiginlega nám. Daði er í vélarverkfræði en ég fékk mig færða yfir í eðlisverkfræðina. Af og til förum við í veislur og stundum skreppur Daði í golf.

Ég er s.s. að hlaupa í tíma núna þannig að endirinn varð hálf snubbóttur. Þarf reyndar að segja ykkur frá mögnuðustu veislu í heimi. Þessi veisla var haldin um helgina og svo skemmtilega vildi einmitt til að við Daðaspaði vorum þar viðstödd.
fredag, september 10, 2004

Það er Stokkhólmur sem talar...

Loksins er bloggið komið, Daði og Hulda live frá Stokkhólmi.

Héðan er allt gott að frétta. Skólinn byrjaður á fullu, ég í vélaverkfræðinni en Hulda í eðlisverkfræðinni (nördar). Skólasvæðið er risastórt og flott, enda er þetta rúmlega 15.000 manna skóli þegar allt er tekið saman. Við erum ekki lengi að fara í skólann því íbúðin okkar er á besta stað í einu helsta úthverfi Stokkhólms, Lidingö. Hér býr flotta fólkið, kvikmyndastjörnurnar og við. Íbúðin er reyndar svolítið tómleg og kannski ekki alveg jafn flott og 500 milljón króna húsin innar á eyjunni, en þetta lagast allt með tímanum. Annars ætla ég bara að hafa þetta stutt til að byrja með en ekki örvænta, við (= Hulda) munum skrifa einhverja ferðasögu enda búin að vera hérna í mánuð og margt búið að gerast. Einnig kemur myndasíðan vonandi fljótlega upp svo að hægt sé að skoða æðislegu bleiku íbúðina...

Stay tuned.